Í kjölfar bankahrunsins hafa margir velt vöngum yfir bágri stöðu krónunnar og orsökum hrakfara hennar. Margir vilja kenna bönkunum sálugu um. Því miður verður að grafa dýpra eftir raunverulegum ástæðum núverandi efnahagsstöðu.
Árið 2003 hófust umfangsmestu framkvæmdir Íslandssögunnar með gerð Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álvers á Reyðarfirði. Framkvæmdirnar námu nærri þriðjungi landsframleiðslu og voru alfarið unnar með erlendu fjármagni. Við upphaf þessa mikla framkvæmdaskeiðs var ljóst að til mótvægis þyrftu stjórnvöld að draga saman í ríkisrekstri ella ylli svo stór erlend fjárfesting mikilli þenslu, ofrisi krónunnar og skekktri samkeppnisstöðu undirstöðuatvinnugreina, þ.e. sjávarútvegs og iðnaðar. Ríkið brást hins vegar í aðhaldsaðgerðum og valdi þenslutímann til að slaka á í ríkisfjármálum með lækkun tekjuskattshlutfalls, helmingun matarskatts, aflagningu ýmissa annarra skatta og hækkun lánshlutfalls íbúðarlána. Afleiðingin varð sú að frá 2003 til 2007 jókst einkaneysla um nær 40% á föstu verðlagi.
Góða veislu gjöra skal
Þegar árið 2004 brást Seðlabankinn við vaxandi verðbólguþrýstingi með vaxtahækkunum sem jafnframt styrktu gengi krónunnar. Hærra gengi vann á móti verðbólgu skamma hríð með lækkun innflutningsverðs en skapaði falskan kaupmátt sem örvaði einkaneyslu og olli miklu þjóðhagslegu ójafnvægi með viðskiptahalla er nam tugum prósenta af landsframleiðslu. Viðskiptahallinn var síðan fjármagnaður með erlendri skuldasöfnun. Nokkurt hlé varð á þessari þróun 2006 þegar krónan féll og verðbólga hækkaði í 8,5%. Margir vonuðu að hagkerfið væri að ná jafnvægi enda hillti undir lok stóriðjuframkvæmda. Reyndin varð önnur og enn var bætt á eldinn með kosningafjárlögunum 2007 sem sýndu að ríkisstjórn og Seðlabanki reru ekki í sömu átt. Bitlítið úrræði Seðlabankans var að hækka stýrivexti sem voru komnir í 13% í byrjun árs 2007. Með þátttöku okkar í EES undirgengumst við fjórfrelsið, m.a. frjálst flæði fjármagns. Háir stýrivextir vöktu athygli á krónunni og skyndilega streymdu hingað peningar úr öllum áttum til að njóta hins mikla vaxtamunar. Staða útlendinga með krónunni óx úr 100 milljörðum í 800-1000 milljarða. Þetta hjálpaði verðbólgumarkmiðum Seðlabankans um hríð; gengið hætti að veikjast og verðbólguskotið frá miðju ári 2006 gekk að mestu til baka ári síðar. Sökum hárra vaxta hérlendis töldu Íslendingar nú þjóðráð að skulda í erlendri mynt. Fyrirtækin juku erlendar skuldir um 100% og heimilin, sem áður skulduðu eingöngu í krónum, skulduðu skyndilega 100-200 milljarða í erlendum lánum. Skynsamlegt hefði verið á þessum tíma að Seðlabankinn yki gjaldeyrisvaraforðann verulega til að geta mætt flæðisbreytingum á gjaldeyrismarkaði en það var því miður ekki gert.
Blaðran springur
Í ársbyrjun 2008 lá fyrir að dæmið gengi ekki upp. Við höfðum búið við falskan kaupmátt og eytt um efni fram. Við vorum ekki svona rík, gengið var bara vitlaust. Við lifðum á lánum og veislan var á enda. Útlendingar spáðu harðri lendingu. Þeir byrjuðu að fikra sig út úr krónunni og Íslendingar einnig. Of miklu var hlaðið á þessa litlu mynt og Seðlabankinn hafði ekki mótvægisafl. Hrunið var óumflýjanlegt, bara spurning um tíma. Krónan veiktist allt árið 2008 og verðbólgan var á stöðugri uppleið. Innflutningur á varanlegum neysluvörum fraus og byggingariðnaðurinn stefndi í alkul. Við blasti grjóthörð lending íslensks efnahagslífs? og svo fraus alþjóðlegt fjármálakerfi og íslensku bankarnir urðu úti á berangri.
Það er vandasamt að starfrækja örmynt eins og krónuna og búa við frjálst flæði fjármagns. Stjórnvöld verða að sýna sérstaka aðgæslu til að missa ekki verðbólguna úr böndunum og Seðlabankinn þarf ávallt að hafa nægilegan gjaldeyrisvaraforða til að mæta snöggu flæði úr landi. Séríslensk vísitölutenging lána gerir illt verra. Ríkisstjórn og Seðlabankinn brugðust á sinni vakt og þess vegna býr íslenska þjóðin nú við gjaldeyrishöft.
Íslenskri þjóð og viðskiptalífi er nauðsyn að losa um gjaldeyrishöftin. Þau eru myllusteinn um háls atvinnulífsins og útiloka allar tilraunir um að endurvekja traust á kerfinu. Semja verður við erlenda fjárfesta, sem eiga krónur í kerfinu, um greiðslu í erlendri mynt nú eða seinna. Jafnframt er fullreynt að íslenska krónan sé okkar framtíðargjaldmiðill. Evran og ESB er nærtækasta leiðin en skoða þarf fleiri kosti. Það hjálpar hins vegar í þeirri vinnu að auðveldara er að eiga við krónuna á krepputímum en þenslutímum.
Höfundur er forstjóri Kjalars hf ''