20.3.2009 | 16:22
Nýir tímar - aukin samkeppni
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag eftir Páll Rúnar Mikael Kristjánsson. Þar sem ég tel að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða ætla ég að taka mér það bessaleyfi að birta hana hér ykkur öllum til lestur. Sú fákeppni sem hér er getur ekki gengið lengur og þetta þarf að laga og það STRAX .
Nýir tímar - aukin samkeppni
MIKLAR umræður hafa verið um hvaða sjónarmið skuli höfð að leiðarljósi við endurreisn íslensks viðskiptalífs. Sitt sýnist hverjum en flestir eru þó sammála um að varhugavert sé að snúa aftur til fyrra horfs. Eitt af því sem mikið er rætt eru samkeppnissjónarmið og hvernig stuðla megi að kröftugri samkeppni á mikilvægum mörkuðum.
Það er öllum ljóst að öflug og virk samkeppni er þjóðhagslega hagkvæm og neytendum í hag. Út frá því má svo gagnálykta sem svo að fákeppni og hringamyndun sé þjóðhagslega óhagkvæm og neytendum í óhag. Það er því gríðarlega mikilvægt að sporna við þeirri fákeppni og blokkamyndum sem orðið hefur á ákveðnum sviðum í íslensku samfélagi. Þetta sjónarmið er grunnforsenda þess að reisa megi hér heilbrigt viðskiptalíf landsmönnum öllum til hagsbóta.
FÍS fagnar því yfirlýsingum Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra í utandagskrárumræðu, sem fór fram að frumkvæði Ástu Möller, á Alþingi hinn 24. febrúar síðastliðinn og sjónarmiðum hans í grein í Morgunblaðinu hinn 13. mars síðastliðinn. Þar staðfestir ráðherrann að samkeppnissjónarmið verði sett á oddinn við endurreisn íslensks atvinnulífs auk þess sem hann bendir á að það sé ekki ráðlegt að endurreisa í óbreyttri mynd þau viðskiptaveldi sem nú eru fallin. Með slík sjónarmið að leiðarljósi munu hér rísa virkir og öflugir markaðir þar sem aðilar takast á með lögmætum hætti á jafnræðisgrundvelli. Þar með næst aukin þjóðhagsleg hagkvæmni og bættur hagur neytenda. Því ber vissulega að fagna.
Það er aðeins með samkeppni, jafnræði og gagnsæi að leiðarljósi sem hér mun takast að reisa öflugt og skilvirkt viðskiptalíf. Að endurskapa fyrri mistök og óskilvirka markaði er valkostur sem ekki kemur til greina. Nýir tímar verða að færa þjóðinni aukna samkeppni og bættan hag.
>> FÍS fagnar því að samkeppnissjónarmið verði sett á oddinn og að gömul viðskiptaveldi verðir ekki endurreist í óbreyttri mynd
>> FÍS fagnar því að samkeppnissjónarmið verði sett á oddinn og að gömul viðskiptaveldi verðir ekki endurreist í óbreyttri mynd
Höfundur er lögmaður Félag íslenskra stórkaupmanna.
Páll Rúnar Mikael Kristjánsson.
Heilbrigð skynsemi óskast.
Njótið dagsins.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.