Í kjölfar bankahrunsins hafa margir velt vöngum yfir bágri stöðu krónunnar og orsökum hrakfara hennar. Margir vilja kenna bönkunum sálugu um. Því miður verður að grafa dýpra eftir raunverulegum ástæðum núverandi efnahagsstöðu.
Árið 2003 hófust umfangsmestu framkvæmdir Íslandssögunnar með gerð Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álvers á Reyðarfirði. Framkvæmdirnar námu nærri þriðjungi landsframleiðslu og voru alfarið unnar með erlendu fjármagni. Við upphaf þessa mikla framkvæmdaskeiðs var ljóst að til mótvægis þyrftu stjórnvöld að draga saman í ríkisrekstri ella ylli svo stór erlend fjárfesting mikilli þenslu, ofrisi krónunnar og skekktri samkeppnisstöðu undirstöðuatvinnugreina, þ.e. sjávarútvegs og iðnaðar. Ríkið brást hins vegar í aðhaldsaðgerðum og valdi þenslutímann til að slaka á í ríkisfjármálum með lækkun tekjuskattshlutfalls, helmingun matarskatts, aflagningu ýmissa annarra skatta og hækkun lánshlutfalls íbúðarlána. Afleiðingin varð sú að frá 2003 til 2007 jókst einkaneysla um nær 40% á föstu verðlagi.
Góða veislu gjöra skal
Þegar árið 2004 brást Seðlabankinn við vaxandi verðbólguþrýstingi með vaxtahækkunum sem jafnframt styrktu gengi krónunnar. Hærra gengi vann á móti verðbólgu skamma hríð með lækkun innflutningsverðs en skapaði falskan kaupmátt sem örvaði einkaneyslu og olli miklu þjóðhagslegu ójafnvægi með viðskiptahalla er nam tugum prósenta af landsframleiðslu. Viðskiptahallinn var síðan fjármagnaður með erlendri skuldasöfnun. Nokkurt hlé varð á þessari þróun 2006 þegar krónan féll og verðbólga hækkaði í 8,5%. Margir vonuðu að hagkerfið væri að ná jafnvægi enda hillti undir lok stóriðjuframkvæmda. Reyndin varð önnur og enn var bætt á eldinn með kosningafjárlögunum 2007 sem sýndu að ríkisstjórn og Seðlabanki reru ekki í sömu átt. Bitlítið úrræði Seðlabankans var að hækka stýrivexti sem voru komnir í 13% í byrjun árs 2007. Með þátttöku okkar í EES undirgengumst við fjórfrelsið, m.a. frjálst flæði fjármagns. Háir stýrivextir vöktu athygli á krónunni og skyndilega streymdu hingað peningar úr öllum áttum til að njóta hins mikla vaxtamunar. Staða útlendinga með krónunni óx úr 100 milljörðum í 800-1000 milljarða. Þetta hjálpaði verðbólgumarkmiðum Seðlabankans um hríð; gengið hætti að veikjast og verðbólguskotið frá miðju ári 2006 gekk að mestu til baka ári síðar. Sökum hárra vaxta hérlendis töldu Íslendingar nú þjóðráð að skulda í erlendri mynt. Fyrirtækin juku erlendar skuldir um 100% og heimilin, sem áður skulduðu eingöngu í krónum, skulduðu skyndilega 100-200 milljarða í erlendum lánum. Skynsamlegt hefði verið á þessum tíma að Seðlabankinn yki gjaldeyrisvaraforðann verulega til að geta mætt flæðisbreytingum á gjaldeyrismarkaði en það var því miður ekki gert.
Blaðran springur
Í ársbyrjun 2008 lá fyrir að dæmið gengi ekki upp. Við höfðum búið við falskan kaupmátt og eytt um efni fram. Við vorum ekki svona rík, gengið var bara vitlaust. Við lifðum á lánum og veislan var á enda. Útlendingar spáðu harðri lendingu. Þeir byrjuðu að fikra sig út úr krónunni og Íslendingar einnig. Of miklu var hlaðið á þessa litlu mynt og Seðlabankinn hafði ekki mótvægisafl. Hrunið var óumflýjanlegt, bara spurning um tíma. Krónan veiktist allt árið 2008 og verðbólgan var á stöðugri uppleið. Innflutningur á varanlegum neysluvörum fraus og byggingariðnaðurinn stefndi í alkul. Við blasti grjóthörð lending íslensks efnahagslífs? og svo fraus alþjóðlegt fjármálakerfi og íslensku bankarnir urðu úti á berangri.
Það er vandasamt að starfrækja örmynt eins og krónuna og búa við frjálst flæði fjármagns. Stjórnvöld verða að sýna sérstaka aðgæslu til að missa ekki verðbólguna úr böndunum og Seðlabankinn þarf ávallt að hafa nægilegan gjaldeyrisvaraforða til að mæta snöggu flæði úr landi. Séríslensk vísitölutenging lána gerir illt verra. Ríkisstjórn og Seðlabankinn brugðust á sinni vakt og þess vegna býr íslenska þjóðin nú við gjaldeyrishöft.
Íslenskri þjóð og viðskiptalífi er nauðsyn að losa um gjaldeyrishöftin. Þau eru myllusteinn um háls atvinnulífsins og útiloka allar tilraunir um að endurvekja traust á kerfinu. Semja verður við erlenda fjárfesta, sem eiga krónur í kerfinu, um greiðslu í erlendri mynt nú eða seinna. Jafnframt er fullreynt að íslenska krónan sé okkar framtíðargjaldmiðill. Evran og ESB er nærtækasta leiðin en skoða þarf fleiri kosti. Það hjálpar hins vegar í þeirri vinnu að auðveldara er að eiga við krónuna á krepputímum en þenslutímum.
Höfundur er forstjóri Kjalars hf ''
Athugasemdir
Get tekið undir margt í þessar i grein, en sumu finnst mér viðkomandi gleyma. Hann gleymir alveg þætti bankanna í þessu bullu öllu, sukkinu og svínaríinu þar og stöðutöku gegn krónunni sem mig nú grunar að húsbóndinn hans hafi stundað.
Hann talar um frjálst flæði fjármagns - þýðir það að geta sent milljarða til skattaparadísa þar sem fjárglæframenn geta stungið fjármunum undan og komist hjá því að borga skatta ?
Svo er ég algerlega ósammála manninum um ESB - ávísun á viðvarandi atvinnuleysi og lækkun lífskjara.
Mér finnst ekki alveg hægt að undanskilja þessa menn sem skuldsettu þjóðina, bæði þá sem stjórnuðu bönkunum og veðsettu nánast allt viðskiptalífið á Íslandi í erlendri mynt. Það eru fyrir mér lélegir stjórnunarhættir, enda virðast sumir hafa komist hjá græðgisvæðingunni og verið varkárari, t.d. Margeir í MP banka.
Sigurður Sigurðsson, 24.2.2009 kl. 08:34
Ekki sammála þér. Þessi hjörleifur hitti ekki naglann og lamdi í puttan á sér.
Þeir sem kenna iðnaðaruppbyggingu á austurlandi um vandann eru strax komnir á villigötur. Á austurlandi átti sér stað raunveruleg verðmætasköpun sem kemur til með að vera ein af þeim grunnstoðum sem kemur til með að bjarga okkur úr þessum vanda. Vilji menn virkilega finna rót vandans væri nær að leita að annarri þenslu hér sem engin verðmætasköpun var á bakvið.
Einn stærsti þáttur í að keyra upp vísitölu neysluverðs 2004-2008 var hækkandi íbúðaverð. Þetta hækkandi íbúðaverð hreinlega knúði seðlabankann til að hækka stýrivexti, ella var verðbólgumarkmiði hans ekki fullnægt. Hvað gerði hið opinbera á meðan. Árin 2001-2004 ca. hætti t.d. Reykjavík að úthluta lóðum, og átti þannig stóran þátt í því að á rauk lóðaverð upp marg-margfallt. Öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu fannst síðan þjóðráð að nota sinn einkasöluréttindi á lóðum til að auka tekjustofn sinn og lóðir sem voru áður seldar á c.a. 4 milljónir voru seldar á 30 milljónir. Þáttur framsóknarmanna í að knýja samtímis fram í stjórnarsáttmála hækkun íbúðasjóðslána átti einnig drjúgan þátt í þessari bólu. Allt skilaði þetta sér inn í fasteignaverð (sem aukin skattheimta sveitarfélaga og pappírspeningar) og einnig inni í hlutabréfaverð vegna aukins veðhæfni. Hér var hafin ákveðin þrælvæðing ungs fólks, sem var óbeint þröngvað til að taka allt of stór lán til þess að eignast þak yfir höfuðið. Eldra fólki og fólki sem átti húsnæði lét fátt um finnast, enda orðin nýrík á bólunni.
Steininn tók þó úr þegar okkur var rétt lausn á silfurfati. Kaninn fór 2005-6 (að mig minnir) og ætlaði að gefa okkur allt húsnæði sitt. Hefðu þessar eignir '(sem voru raunverulegt aukið verðmæti fyrir íslenskt samfélag ca. 100-200Ma) verið sett beint á markað hefði það létt pressunni á húsnæðisvandanum og lækkað húsnæðisverð aftur niður í það sem það varð áður en það var spennt upp. Slíkt var ekki gert og næstu 2-3 árin neyddist ungt fólk til að kaupa áfram íbúðaverð á uppsprengdu verði og falskt hlutabréfaverð hélt áfram að hækka. Hefði þetta raunveruleikatékk átt sér stað á þessum tíma hefði að mínu mati ekki orðið eins alvarlegt bankahrun og nú er orðið. Hefðu verið raunveruleg vermæti bak við mikið af þessum erlendu íbúðalánum (þ.e. ekki uppsprengt húsnæðisverð) hefði t.d. krónan aldrei orðið eins veik. Hvað varðar bílalánin, þá má höfum við alltaf Norrænu ef illa fer.
Um allan heim eru menn að tala um að húsnæðisbóla hafi verið ein að meginástæðum kreppunnar. En hér á Íslandi er þetta dabba, krónunni eða vera utan EB að kenna.
COME ON - segi ég nú bara.
joi (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:56
Ég er sammála jóa. Ef borin er saman hækkun vísitölu neysluverðs með og án húsnæðis á þessum tíma, þá kemur í ljós að vísitala með húsnæði hækkaði um tæp 20% frá ágúst 2004 til janúar 2008, meðan vísitalan án húsnæðis hækkaði um tæp 10%. Kárahnjúkar voru því EKKI að valda neysluverðbólgu eins og Hjörleifur heldur fram.
Hjörleifur kýs líka að líta framhjá þeirri staðreynd að lækkun matarskatts er tilraun til að draga úr verðbólgu ekki auka. Hann lítur einnig framhjá þeirri staðreynd að ofan í matarskattslækkunina kom önnur aðgerð hjá FME/Seðlabanka, þar sem útlánageta bankanna gegn veði var aukin um 41%, þ.e. eiginfjárkröfu bankanna var breytt þannig að í staðinn fyrir að geta lánað út 200 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigin fé, var hægt að lána út 282 kr. Þetta var ekki í fyrsta skiptið á tímabilinu frá 2003 til 2008 sem Seðlabanki og FME unnu gegn stöðugleika í hagkerfinu, þar sem árið 2003 var bæði bindiskyldan bankanna lækkuð um helming og eiginfjárkrafan rýmkuð, þ.e. áður dugðu 8 kr. í eigin fé til að lán 100 kr. en því var breytt í 200 kr. Meira að segja Kauping varaði við þessu sem verðbólguhvetjandi aðgerðum á sínum tíma!
Marinó G. Njálsson, 24.2.2009 kl. 13:09
Marinó - hvaðan hefurðu þessi tíðindi um lækkun eiginfjárkröfu úr 8% í 4%?
Grétar (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 13:39
Þetta var gert með reglugerðarbreytingu sem tók gildi 1. júlí 2003. Hún tiltók að svokallaður áhættustuðull vegna mats á áhættu veðlána við útreikning eiginfjárkröfu veðlána á veðrétti ofar fyrsta veðrétti yrði 0,5 í staðinn fyrir að vera 1,0. Fram að því höfðu eingöngu lán á 1. veðrétti verið með stuðulinn 0,5. Þessi stuðull var síðan lækkaður niður í 0,35 2. mars 2007. Þýðing þessarra tveggja aðgerða var að 8 kr. í eigin fé sem áður dugði til að lána út 100 kr. stóðu undir 282 kr. í útlán. Þetta eru reglur sem kenndar eru við BASEL II. Þú finnur meira um þetta hér: Blame it on Basel (frá 15. apríl 2008) og Er Seðlabankinn stikkfrí? (frá 5. júní 2007!).
Marinó G. Njálsson, 24.2.2009 kl. 22:13
Hvað er það sem þú kallar "veðréttur ofar fyrsta veðrétti"?
Svo get ég sagt þér að þessi söguskýring er mikill hálfsannleikur ef er þá yfirhöfuð nokkuð hægt að bendla henni við sannleika. Mismunur Basel I og Basel II fyrir íslensk fjármálafyrirtæki reyndist yfirleitt sá að útreiknað eiginfjárhlutfall lækkaði frekar en það hækkaði.
Grétar (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 17:36
Ástæðan fyrir því að hér leitaði fjármagn í leit að næturstað, má eins skrifa á það að Greenspan og fleiri höfðu skrúfað vexti niður í nánast ekkert. Þar byrjar glæpurinn. Hér var annars löngu búið að slá tóninn fyrir þenslunni með því að afhenda kvótann spekúlöntum. Þar skapaðist svona Mark to Market umhverfi, sem varð bæði uppgangur og fall Enron t.d. Spákaupmennska með kvóta settann að veði á stjarnfræðilegu yfirverði sem kvótakóngarnir settu upp sjálfir. Sérðu líkindin. Sérðu svona disaster waiting to happen þar? Annars er þetta allt rétt í greininni og engar fréttir. Það var vbúið að benda á þetta hástöfum frá byrjun.
Annars langar mig að bera undir þig Hagfræðinginn Michael Hudson. Flettu honum upp. Segðu mér hvort hann er ekki algerlega með fingurinn á meininu. Já og Gunnar Tómasson, sem einmitt var einn þeirra sem varaði við þessu öllu einn fyrstur manna.
Jón Steinar Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 00:56
Arkitektar þessarar kreppu hjá Federal Reserve, sem er hvorki Federal né reserve, misreiknuðu sig svolítið á hlutunum. Þeir misstu vald á sceeminu og hrunið er dýpra en menn hugðu og á eftir að versna á meðan þeir prenta peninga og dæla í hluthafa sína og vildarvini á Wallstreet. Dollarinn mun falla í frjálsu falli og fjármagnsflótti mikill bregða á í USA. Og hvað þá? Ég segi við þig. Get out while you can. Breyttu dollurunum þínum í eitthvað betra. Þetta á að fara illa og fer illa. Engar samsæriskenningar þar, bara hagfræði 101.
Jón Steinar Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 01:03
Ég sagðist sammála honum og er það nema að því leyti að þetta er ekki eina kveikjan að fárinu. Hér er keðjuverkun og umhverfi, sem síðan var enn frjórra við nýjar lagasetningar um frjálsræði og kolvitlaus viðbrögð seðlabanka, sem einblíndi á verðbólgumarkmitt sitt og sá ekkert annað. Að þetta hefði ekki orðið án kárahnúka er ansi vafasamt í ljósi þessa. Hér var í grunnin á ferðinni hugmyndafræði, ytra umhverfi sem innra, gríðarleg mistök í peningastjórnun, lobbyismi hagsmunaaðila, afneitun og fleira mannlegt sem stóð undir þessu. Það er enginn einn lykill, þótt Innstreymið í kringum Kárahnúka hafi haft hvetjandi áhrif. Það var búið að dúka borðið fyrir þessa veislu mikið fyrr.
Jón Steinar Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.