Eftirlitsiðnaðurinn er ein af ástæðum dýrtíðarinnar

Reglugerðafargan, tollar, vörugjöld, sykurskattur Steingríms J., vaskur (VSK) og útþaninn eftirlitsiðnaður hins opinbera er ein helsta ástæða þess hversu hátt dagvöruverð er hér á landi. Hundruð milljóna króna ef ekki milljarðar koma úr vösum almennings til greiðslu á kostnaðarsömum eftirlitsiðnaði sem er nú miklu meira en ofmannaður.

Ofan á þetta bætist oftúlkun Matvælastofnunar (MAST) á ESB-reglum, sem telur það heilaga skyldu sína að hindra að hingað berist matvæli frá öðrum löndum en aðildarríkjum ESB. Vörur sem eru ekki síður vandaðar og oft ódýrari í innkaupum en þær sem koma frá ESB því reglugerðafargan ESB kostar gríðarlegar fjárhæðir sem koma illa við buddu neytenda í aðildarlöndunum. Nú eiga íslenskir neytendur að taka þátt í þeim kostnaði hvað sem tautar og raular. Allur kostnaðurinn sem af þessu hlýst bitnar þungt á heimilum landsmanna, sem þegar bera þunga skuldabagga, og fjölskyldur eiga oft erfitt með að ná endum saman í innkaupum.

Viðskiptahömlur
Ofan á allt þetta bætist að MAST, eftirlitsaðili stjórnvalda og sérstakur umboðsmaður ESB, sér t.d. til þess að ef bandarísk matvara kemst í gegnum trektina hjá stofnuninni þá þarf að fylla út allskyns form og senda inn til samþykktar fyrir hönd ESB. Í kjölfar þess verður að setja límmiða á allar pakkningarnar sem lýsa innihaldi og næringargildi samkvæmt ESB-reglum. Það er vitað að innihaldslýsingar ESB hafa þann höfuðtilgang að vernda hagsmuni evrópskra framleiðenda fyrir utanaðkomandi samkeppni. Þetta heitir á mannamáli viðskiptahömlur.

Bandarískir matvælaframleiðendur búa við einhverja öflugustu og ströngustu eftirlitsstofnun heimsins á þessu sviði, sem heitir the Food and Drug Administration (Matvælastofnun Bandaríkjanna). Enda, var það ekki í Bandaríkjunum sem upp komst um hrossakjötshneykslið? Nei, það var innan ESB sem eftirlitsiðnaðurinn svaf á verðinum, sem varð þess valdandi að evrópskir framleiðendur notuðu kjöt af gömlum dráttarklárum í stað nautakjöts. Það mætti halda að bandarískir framleiðendur komist upp með að setja hættuleg efni í matvörurnar sem vel yfir 300 milljónir manna neyta daglega.

Bíða spennt eftir aðgerðum
Rétt eins og evrópskum kollegum þeirra er bandarískum matvælaframleiðendum gert að upplýsa bæði um innihald og næringargildi matvöru. Þeir tilgreina næringargildið í skammtastærð vörunnar miðað við einstakling, meðan evrópskum framleiðendum er gert að tilgreina næringargildið í hverjum 100 g innihalds. Það er miklu auðskildara og skýrara fyrir einstakling að skoða innihaldslýsingu á bandarískum pakkningum sem miða við eðlilega einstaklingsþörf heldur en þeim evrópsku sem krefst hugarreiknings miðað við 100 g. Matvælaframleiðendur vestra hjálpa neytendum að meta grömm dagneyslu 2.000 hitaeininga með því að merkja innihald matvörunnar í prósentum (%) sem eru auðskiljanlegar. Það er því augljóst hvað neysluskammturinn er stór, t.d. fullur diskur, bolli eða skál. Evrópska aðferðin kallar hins vegar á að neytandinn viti hvað skammturinn er þungur og síðan þarf hann að reikna í huganum miðað við 100 g, hversu mikið af næringarefnum, t.d. fitu, sykri og próteini, er í hverjum skammti.

Vonandi mun ný ríkisstjórn leggja áherslu á að einfalda reglugerðafarganið, skera niður eftirlitsiðnaðinn, sem er orðinn þjóðfélagsvandamál, fella niður óþarfa opinberar álögur á matvæli, sem skila litlu í ríkiskassann þegar upp er staðið, og hætta að eltast við óþarfa reglugerðir Evrópusambandsins, sem við eigum enga samleið með. Neytendur og matvöruverslunin bíða spennt eftir jákvæðum aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar til þess að lækka matvælakostnað heimilanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband