Hærra matarverð vegna farsakennds reglufargans ESB

Það er óþolandi fyrir neytendur að opinberir eftirlitsaðilar verji tugum, ef ekki hundruðum milljónakróna á ári til að halda uppi matarverði og stuðla að einhæfu vöruframboði. Það er gert með skipulögðum viðskiptaþvingunum gegn ríkjum utan Evrópusambandsins (ESB).

Þetta eru afleiðingar þeirrar undarlegu ákvörðunar stjórnvalda að innleiða athugasemdalaust óbreytt reglugerðafargan ESB vegna framleiðslu og innflutnings matvæla frá Bandaríkjunum án þess að skoð áhrif þess fyrir neytendur.

Stjórnvöld segjast þurfa að virða reglur ESB um innihaldsmerkingar matvöru og þær kröfur ESB að sambandið verði að viðurkenna bandaríska matvælaframleiðendur sem flytja vörur til Evrópu. Þetta er í besta falli hálfsannleikur. Um er að ræða stjórnvaldsákvarðanir en ekki reglugerðir sem okkur ber að hlíta. Tilgangur ESB er að vernda matvælaframleiðslu í ESB-löndum með því að hindra sem mest innflutning á viðurkenndum amerískum matvörum sem hundruð milljóna manna neyta daglega. Allir muna eftir banni ESB á innflutningi á bognum bönunum hér um árið frá ríkjum utan ESB og nýlegt mál varðandi gamla góða Cocoa Puffsið.

Innihaldslýsingar á evrópskum matvælum eru nákvæmar og upplýsandi. Það sama á við um bandarískar matvörur, enda er framleiðsla matvöru í BNA háð ströngu eftirliti Matvælastofnunar Bandaríkjanna (Food and Drug Administration) í Washington. Eini munurinn á framsetningu upplýsinganna er að í BNA er innihaldið miðað við áætlaðan neysluskammt vörunnar en í Evrópu er framleiðendum gert að tilgreina innihald í hverjum hundrað grömmum matvörunnar.

Í báðum tilvikum eru neytendur upplýstir um innihald, hlutfall næringarefna, fitu, sykurs og annarra efna. Evrópskir neytendur þurfa að áætla þyngd vörunnar og reikna út innihald út frá 100 grömmum meðan bandarískir neytendur miða við skammtastærð. Furðulegt er að önnur aðferðin sé bönnuð en hin leyfð, því báðar segja það sama. Erfitt er að sjá hvaða rök mæla gegn því að báðar skráningaraðferðirnar séu viðurkenndar af yfirvaldinu.


Þar sem ólöglegt er að bjóða íslenskum neytendum matvöru sem merkt er með amerísku aðferðinni þurfa innflytjendur að endurreikna innihald matvörunnar úr skammtastærð yfir í 100 grömm, prenta á límmiða sem komið er fyrir á hverri einustu pakkningu sem sett er í hillur verslunarinnar. Kostur hefur ráðið tvo matvælafræðinga til þess að sinna þessum endurreikningum. Eftirlitsmenn fylgjast síðan grannt með því að reglum ESB sé sannarlega fylgt og kostnaðurinn við eftirlitið greiða skattborgarar þessa lands.

Með þessu móti getur ESB skrúfað fyrir innflutning þekktra matvæla t.d. frá KRAFT, Kellogg´s, Hunt’s og Campell nema til komi kostnaður við eftirlit og endurmerkingar sem getur hækkað vöruverðið 15% til 40%. Neytendum munar um minna.
KL Almonds
Dapurt dæmi um þessa ESB endaleysu eru möndlur frá bandaríska framleiðandanum Kirkland sem Kostur flytur inn (sjá mynd). Eftirlitsaðilar komu í Kost og tóku þær traustataki því upprunavottorð vantaði. Framleiðandinn leggur ekki í þann kostnað fyrir eitt vörubretti af möndlum. Kostur þurfti þá að flytja bandarísku möndlurnar frá Bretlandi, því þar var sama vara komin með rétt vottorð frá ESB. Viðskiptavinir Kosts geta því áfram keypt Kirkland möndlur en þurfa nú að greiða 20% hærra verð fyrir þær. Þetta „drama“ bitnar því á íslenskum neytendum.

Annað dæmi um reglufár ESB, sem vel er passað upp á, var innleitt til þess að vernda evrópska matvælaframleiðslu með öllum tiltækum ráðum, hversu heimskulegt sem það kann að vera. Hið þekkta bandaríska krydd,Season All, er vinsælt og fékkst hér árum saman. Nú er óheimilt að flytja það inn frá Bandaríkjunum vegna þess að það inniheldur náttúrulegt litarefni sem unnið er úr Annatto fræjum. Banninu virðist eingöngu vera ætlað að vernda ESB kryddframleiðendur enda er evrópskum matvælaframleiðendum fyllilega heimilt að nota það og hafa gert frá því fyrir árið 1870. Efnið, sem einnig er kallað E160b, er meðal annars notað í ostagerð víða um Evrópu, þ.m.t. hér á landi.„Það sem gefur Maribó-ostinum sinn einkennandi appelsínugula lit er Annatto-fræið sem mikið er notað í suðurameríska matargerð,”segir á heimasíðu MS, en hér er það notað í íslensku Maribo- og Cheddar-ostana. En Íslendingar mega samt ekki kaupaSeason All.

Þótt reglufarganið sé farsakennt er fáum skemmt. Það leiðir af sér afar einsleitt vöruframboð í íslenskum verslunum og kostnaðurinn við að framfylgja því er verulegur. Það yrði því til mikilla hagsbóta fyrir íslensk heimili ef stjórnvöld hættu þessari vitleysu. Hvað ætlar útþaninn eftirlitsiðnaður stjórnvalda að gera þegar ESB og BNA hafa gert með sér fríverslunarsamning í lok árs 2014? Þá opnast markaðir ESB og BNA upp á gátt fyrir vörur hvors annars.

Föllum við Íslendingar þá milli skips og bryggju? 

Jon Gerald Sullenberger. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Gíslason

Alveg sammála þér að regluverk esb hækkar matarverð og gera um leið að það er mjög erfitt að flytja inn vörur frá öðrum löndum en esb.

Ómar Gíslason, 2.4.2013 kl. 20:28

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þar sem ég bý ESB og í einu ESB landi og við hliðina á öðru. Þá get ég sagt með mikilli vissu að þetta er tóm þvæla í þér. Það sem hækkar matvælaverð á Íslandi er fákeppni, fákeppni og fákeppni. Síðan má bæta við tollum á Íslandi og ríkisstyrktri einokun á landbúnaðarvörum á Íslandi.

Þannig að þú hefur rangt fyrir þér. Ég skil ennfremur ekkert í þér að koma með svona fullyrðingar þegar ljóst er að þær eru rangar og hafa ekkert með matvælaeftirlit Evrópusambandsins að gera.

Jón Frímann Jónsson, 2.4.2013 kl. 21:11

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Þetta eru tæknilegar viðskiptahindranir og samkeppnishamlandi og eru alveg í anda þess búrókrata öngstrætis sem tröllríður öllu Evrópusovét sambandinu og enginn virðist geta stöðvað eða undið ofan af.

Auðvitað hækkar svona vitleysa vöruverðið á því er enginn vafi.

Enda sýnir greinarhöfundar glögglega fram á það.

Auk þess sem þessi vitleysa hækkar útgjöld ríkisins til sífellt stækkandi eftirlitsiðnaðar.

Sem þýðir á endanum verri lífskjör til allra

Gunnlaugur I., 2.4.2013 kl. 21:25

4 Smámynd: Ómar Gíslason

Með því að velja lög esb erum við að hækka vöruverðið meira en gengur og gerist. Esb er haftastefna sem dæmi að við inngöngu í esb kemur 7% tollur á allar vörur fyrir utan esb. Þannig erum við skuldbundin til að versla inna þessara Evrópusovét samband sem er komið á hliðina.

Það eina sem esb tryggir er að stórir framleiðendur í löndum esb sitja nærri einir að markaðinum og reyna að útiloka aðra frá markaðinum við það hækkar vöruverðið. Viðskiptahindranir esb veldur hækkun á vöruverði! Sem dæmi að það er lítið sem ekkert eftirlit haft með hvað er í matvörum innan esb stenst það miðað við innihaldslýsingu? Besta dæmið í þessu að árið 2002 bannaði Lyfjastofnun Bandaríkjanna frönsku brjóstapúðanna í BNA þar sem innihaldið var ekki í samræmi við kröfur.

Ómar Gíslason, 2.4.2013 kl. 22:44

5 Smámynd: K.H.S.

Hvaða barn er sett í það að skrifa þetta rugl sem maður sífellt sér og er auðkennt með stjörnuhring á bláum grunni. Þetta rugl er svo átakanlega innantómt,  eintómar fullyrðingar, órökstuddar sem sjaldnast standast.

Er einhverjum borgað fyrir þetta af ESB áróðurssetrinu.

K.H.S., 3.4.2013 kl. 12:25

6 Smámynd: K.H.S.

Jón takk fyrir þitt framtak.

Kom í búðina  þína í síðustu viku og hreifst mjög af, vart talað um annað undanfarið.

Allt fyrirkomulag fannst mér með ágætum. 

Nóg  pláss til að mætast með körfur milli hilla.

Allt snyrtilegt og  til sóma.

Þú hefur augljóslega mjög  gott starfsfólk.

Mæti framvegis reglulega.

K.H.S., 3.4.2013 kl. 12:36

7 identicon

Fróðlegur pistill. Ég átta mig samt ekki alveg á dæminu með möndlurar.  Er krafa um upprunavottorð eitthvert sérfyrirbrigði hjá ESB? Líturðu á slíka kröfu sem tæknilega viðskiftahindrun?

Ekki það að eitthvað klikkaði varðandi upprunavottorðin á hrossakjötinu rúmenska ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.4.2013 kl. 13:03

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Jón Gerald.   Takk fyrir þína góðu verslun Kost...

Ágúst H Bjarnason, 3.4.2013 kl. 13:19

9 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Myndi þessi margtuggða fákeppni eitthvað breytast við inngöngu í ESB? Tollar eru eitt en vörugjöld annað, það eru ýmis vörugjöld í gangi þó engir séu tollarnir. Vörugjald er einungis ein leið til þess að fara framhjá gerðum tolla- og fríverslunarsamningum.

Sindri Karl Sigurðsson, 3.4.2013 kl. 15:08

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég þekki málið sem hér er fjallað um að hluta til.

Það er að segja að ég þekki Kirkland vörumerkið.  Fá ef nokkur vörumerki eru til sem ég met meira.  Kirkaland er "in house" eða eigið vörumerki Costco.  Costco er ein af bestu, ef ekki sú besta stórmarkaða keðja sem Ameríka býður upp á.

Vörur þeirra eru ekki alltaf þær ódýrustu, en þegar er reynt að reikna saman verð og gæði, hef ég alltaf komist að þeirri njðurstöðu að Kirkland sé eitt af þeim bestu vörumerkjum sem boðið er upp á.   

Ég hef hins vegar ekki næga þekkingu á samsetningu EES/EEA samningsins til að dæma um hvort að Ísland á einhvern möguleika á að sleppa undan Evrópusamþykktum hvað varðar upplýsiingar um  næringarinnihald.  Ég er þó hræddur um að svo sé ekki.

Þetta er einmitt gott dæmi um hvernig Evrópusambandið (reyndar einnig Bandaríkin) hafa reynt að leggja stein í götu frjálsra viðskipta og samkeppni.  

Það er reyndar einnig staðreynd að mörg fjölþjóðleg fyrirtæki hafa reynt að ýta undir þessa mismununu, vegna þess að það hentar þeim afskaplega vel, að geta verðlagt vöru sína hærra á Evrópumarkaði en þau komast upp með í N-Ameríku.

Það eru endalaus dæmi um það, að dreifingafyrirtæki sömu fyritækja sömu fyirtækja, verðleggja vöru sína mun hærra í Evrópu en þau gera í N-Ameríku.

G. Tómas Gunnarsson, 3.4.2013 kl. 18:22

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fer ekki afnám vörugjalda beint í vasa verslunarinnar nafni? Er þessi spuni hjá samtökum verslunarinnar til þess að auka þeirra eigin olnbogarúm til álagningar. Það er reynslan með allar ívinanir til að lækka vöruverð. Það getur þú allavega ekki þrætt fyrir.

Verndartollar ESB eru ekki til að bæta þetta. Það er siðlaust að skekkja samkeppni á alþjóðamarkaði með þessum hætti. Allt sem þeir uppskera er skert samkeppnishæfni í löndum utan sambandsins þar sem menn beita sömu meðilum á þá.

Frelsi á markaði á einmitt að snúast um þetta. Frelsi til heilbrigðrar samkeppni neytendum í vil. Þetta sovét hefur náttúrlega andstyggð á því.

Fákeppni og samráð hér heima kemur hinsvegar í veg fyrir að þetta nýtist eigendum. Þið fylgist með verðum hvers annars undir formerkjum samkeppni, en í raun er þetta samráð um álagningu. Koníaksklúbburinn Verslunarráð inniheldur flesta svokallaða keppendur á markaði. Þar eru dílarnir gerðir, þar eru frumvörpin samin og þaðan eru áróðursherferðir reknar.

Þetta er allt saman spinn með öfugum markmiðum en fólk heldur.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.4.2013 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband