Fréttaauki Eyjunnar: Byr, Baugur, Karen Millen og viðskiptalífið sem var

Hér er mjög góður pistill frá henni Sigrúnu Davíðsdótir fréttakonu sem ég mæli með að allir lesi.

Alltaf eru þetta sömu mennirnir sem eru að misnota þessa þjóð og gera enn.

''Sparisjóðurinn Byr virðist vera að taka við hlutverki almenningshlutafélagsins FL Group sem fyrirtækið þar sem allar hreyfingar og hræringar eru óskiljanlegar með berum augum – en væntanlega skiljanlegar ef betur væri hægt að fá upplýsingar um einstaka stofnfjáreigendur og tengsl þeirra. Margir skuggabaldrar viðskiptalífsins sem var hafa laðast að þessum aldna sparisjóði eftir að Baugsveldið náði þar undirtökunum fyrir þremur árum. Byr heldur áfram að sjá Íslendingum fyrir óvæntum uppákomum, samanber aðalfundinn um miðjan maí og eftirmálin að stjórnarkosningum þar.

Þetta skrifar Sigrún Davíðsdóttir sem í fréttaauka Eyjunnar í dag fjallar um sparisjóðinn Byr, Baug, Karen Millen og viðskiptalífið sem var.

Eitt af því sem heyrðist stundum á árum áður var að líkt og Íslendingar færu erlendis að fjárfesta myndu útlendingar fjárfesta í íslenskum félögum. Það varð aldrei í miklum mæli – flestir fjárfestar fórnuðu höndum þegar þeir sáu hvað driffjaðrirnar í íslensku viðskiptalífi voru tengdar og hvað fátt var sem sýndist. Kevin Stanford og þáverandi kona hans Karen Millen voru undantekningarnar. Þau fjárfestu reyndar ekki upp á eigin spýtur heldur í nánu samfloti við Jón Ásgeir Jóhannesson, Sigurð Bollason og Magnús Ármann.

Kevin Stanford er ekki þekkt nafnt utan breska verslunar- og fjármálaheimsins en konan hans fyrrverandi, Karen Millen, er víðfræg enda er búðarkeðjan sem þau hjónin stofnuðu skýrð eftir henni. Snemma á 9. áratugnum byrjuðu þau hjón að sauma skyrtur og selja vinum og vandamönnum. Framleiðslan vatt upp á sig og úr varð keðja sem seldi vel. Baugur hafði áhuga á að byggja upp safn tískubúða og ‘Karen Millen’ féll inn í þá áætlun. Baugur keypti keðjuna haustið 2004 fyrir 70 milljónir punda og eignaðist þá 100 búðir, þar af rúmlega 40 Whistles-búðir sem þau Stanford og Millen höfðu áður keypt.

Þar með tengdust þau tvö Baugi og hröðum og örum Baugs-hræringum í breska fatabúðaheiminum. Standford og Millen eignuðust fjórðung í Oasis sem Baugur átti ásamt stjórnendum keðjunnar og Millen-keðjan fór inn í. Í fréttum á þeim tíma var sagt að þar með ætti Baugur 51 prósent í Oasis sem var keypt í nóvember 2003 fyrir 150 milljónir punda. Kaupþing kom kaupsamningnum saman og fjárfesti í Millen í leiðinni, að hætti fjárfestingabanka og þá var bankinn orðinn hagsmunaaðili í fatabúðageiranum. Oasis stefndi á að fara á markað með félagið – en það varð þó ekki fyrr en búið var að koma saman fleiri tískufyrirtækjum í Mosaic Fashion og það var þá gert á Íslandi, ekki í London. Leifarnar eru nú í þrotabúi Baugs. Í janúar kom fram að Kaupþing átti 20 prósenta hlut í Mosaic sem skuldaði bankanum 400 milljónir punda.

En Stanford hafði greinilega smekk fyrir Íslandi og íslenskum fjárfestum. Honum skaut upp í FL Group strax sumarið 2005 í örlagafléttunni þegar Saxbygg seldi rúmlega fjórðungshlut sinn í félaginu til Landsbankans sem seldi hann áfram. Lítið vissum við þá hvað í vændum væri en sumir voru uggandi því eins og kunnugt er gengu þau Árni Oddur Þórðarson, Hreggiviður Jónsson og Inga Jóna Þórðardóttir úr stjórn, því miður án þess að upplýsa nákvæmlega hvað þeim hugnaðist ekki við nýju eigendurna. (Saxbygg, í eigu Saxhóls sem Nóatúnsfjölskyldan á og Bygg, byggingarfélags Gylfa og Gunnars, óskaði nýlega eftir gjaldþrotaskiptum.) Upp úr þessum hræringum varð Hannes Smárason stjórnarmaður en aðrir í stjórn voru meðal annars Jón Ásgeir Jóhannesson, Þorsteinn M. Jónsson, Magnús Ármann og Sigurður Bollason.

Kevin Stanford varð varamaður, átti í félögunum Icon ehf og Materia Invest ehf ásamt Magnúsi og Sigurði en félögin komu við sögu í þessari sögulegu yfirtöku. Yfirtöku sem síðar var kærð og þar kom við sögu Lúx-félag, stofnað af Tortólufélögum eins og þessir umsvifamenn dýrka helst. Kæran breytti engu og Fjármálaeftirlitið áleit að allt hefði verið með eðlilegum hætti. Þegar kom fram á vorið 2006 skildu leiðir. Sigurður seldi sinn hlut í Icon ehf, sem átti tæp átta prósent í FL Group og Runna ehf, sem átti tæp þrettán prósent í Dagsbrún. Þessa hluti hans keypti Materia Invest ehf, í eigu Magnúsar, Stanford og Þorsteins. Stanford veit því allt um dálæti íslenskra umsvifamanna á snöggum ákvörðunum og um kaup- og sölugleði þeirra.

Stanford lét ekki staðar numið við FL Group heldur keypti líka hlut í Kaupþingi. Samskiptin við Kaupþing hafa reynst honum örlagaríkt. Í Englandi eru stjórnarmenn skyldugir að tilkynna ef þeir leggja hlutabréf sín í viðkomandi fyrirtæki að veði. Í vetur kom í ljós að á þessu hafði verið misbrestur. Fjármálaeftirlitið breska, FSA, gerði þá skurk í að minna menn á þessa skyldu. FSA birtir þessar upplýsingar og þá vakti athygli hvað margir höfðu fengið persónuleg lán í enska Kaupþingi út á hlutabréf. Þetta er ekki óþekkt hér en enginn banki var jafn glaðbeittur í slíkum lánum og Kaupþing. Þetta er líklega dæmi um hvað nýr banki á svæðinu gerir til að lokka til sín viðskiptamenn.

Einn þeirra var Stanford sem nú slæst við skilanefnd Kaupþings um lán upp á 250 milljónir punda. Sem veð hafði hann meðal annars lagt bréf í tískukeðjunni ‘All Saints’ sem Stanford stofnaði og Baugur átti 35 prósent í. Sú keðja er ein helsta afrekasaga í breska verslunargeiranum undanfarin ár. Hann var ósáttur að missa bréfin en hefur nú lotið í lægra haldi. Í Kaupþingslánum, líka frá Kaupþingi í Lúxemborg, til Stanford koma fleiri hlutir hans í öðrum fyrirtækjum við sögu. Það fer því að sneiðast um hans eignir. Stanford er einnig flæktur í málaferli á Íslandi þar sem VBS Fjárfestingabanki hefur höfðað mál gegn honum og fjárfestingarsjóðnum Kcaj, í eigu Jóns Schevings Thorsteinssonar sem áður vann hjá Baugi. VBS hafði lánað Ghost, fatafyrirtæki sem Stanford og Kcaj eiga saman, 5 milljónir punda, nú einn milljarð króna.

Þá er komið að Byr. Á lista yfir stofnfjáreigendur 30. júlí 2007 eru þau Stanford og Millen skráð hvor með sín 1,7 prósent. Eins og kunnugt er hefur komið í ljós að fyrri stjórn Byrs hélt velli vegna stuðnings Millen. Hún er hins vegar ekki lengur á lista yfir stofnfjáreigendur en hefur haldið því fram að Kaupþing Lúxemborg fari með hennar hlut. Bankinn er skráður fyrir 4,6 prósenta hlut svo annaðhvort hefur hún aukið hlut sinn eða að fleiri eru um þennan hlut. Nú virðist stefna í deilur um hvort þetta fyrirkomulag sé lögum samkvæmt.

Í stefnuræðu sinni sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra: “Við megum ekki láta hagsmuni fárra víkja fyrir hagsmunum margra.” Ef þetta var mismæli er Byr góður staður til að byrja á. Arðgreiðslurnar í fyrra voru undarlegar, svo ekki sé meira sagt og spurning hversu lengi sparisjóðurinn verður vettvangur sérhagsmuna viðskiptalífsins sem var.,,

 

Er of mikils til ætlast að fjölmiðlar á Íslandi leiti svara af KRAFTI ? 

 

Græðgi þessara manna hefur eyðilagt orðstír heillar þjóðar.

Nýtt Ísland og heilbrigð skynsemi óskast.


Ársfundur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Kæru sjóðsfélagar,

Ársfundur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna verður haldin á Grand Hótel kl.18:15 í kvöld 25 maí.

Þetta er líklega einn mikilvægasti fundur lífeyrissjóðsins til þessa og hvet ég alla sjóðsfélaga að mæta enda gríðarlegir hagsmunir í húfi.Lagt verður fram nokkur mál á fundinum og bið um stuðning ykkar enda ársfundurinn æðsta vald sjóðsins þar sem félagsmenn geta krafist svara.  Helstu mál: 1. Að sett verði launaþak á æðstu stjórnendur sjóðsins.2. Að bækur sjóðsins verði opnaðar og skuldabréfaeign sjóðsins verði sundurliðuð og gerð opinber. 3. Að laggður verði fram eignalista yfir öll hlutabréf, skuldabréf og aðrar eignir LIVE þann 1. janúar 2008, 3. október 2008 og 1. janúar 2009 (á við bæði innlendar sem og erlendar fjárfestingar). Jafnframt yfirlit yfir þóknanir við eignatilfærslur.4. Að fundurinn samþykki ekki ársreikning fyrr en upplýsingar um í 2. lið liggur fyrir.5. Að óháðir aðilar (erlendir) sem fulltrúar sjóðsfélaga utan stjórnar tilnefna til að endurskoða bækur sjóðsins.

Sýnum Samstöðu og mætum öll.

 

Bloggfærslur 25. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband